Dekurstund

Uppá síðkastið er svo auðvelt að græja sig ekki á daginn, eyða honum í joggingbuxum með hálfgreitt hárið. Síðan ég byrjaði að vera svona mikið heima þá hef ég haft litla ástæðu til að sjá um mig og gera mig til og stundum leiðir það til þess að sjálfsöryggið fari minnkandi. Svo að ég reyni að hafa smá dekur af og til, skrúbba mig, setja maska, brúnkukrem og allskonar fleira. Því það má alveg gera sig sætan fyrir sig sjálfan. Ég tók eitt kvöld og morgun í seinustu viku til að gera smátt og smátt svolítið vel við mig og mér leið strax eins og ég væri mikið ferskari og leið betur. Ég náði líka að plata Kristófer í mini dekurkvöld.

Við byrjuðum kvöldið á því að setja á okkur maska yfir fangavaktinni… og ég fékk reyndar líka að snyrta neglurnar á Kristó en usss það er leyndó.

Mér finnst gott að setja maska ca einu sinni í viku en er alls ekki nógu dugleg að gera það. Ég nota mismunandi maska eftir því hvernig húðin mín er á þeirri stundu.

Við Kristó notuðum tea tree maskann núna aðeins til að hreinsa húðina eftir laaanga maskapásu. Þegar húðin mín verður slæm eða stundum gróf og mér líður eins og ég þurfi á “slípun” að halda þá nota ég maskann frá The Ordinary. Mér finnst síðan gott að nota kaffimaskann frá Body shop á morgnana til að gera húðina aðeins ferskari og það er líka guðdómleg lykt af honum! Ég er búin að fara í gegnum nokkrar litlar dollur af kaffimaskanum svo ég held að það sé kominn tími á að ég kaupi mér stærri gerðina.

Eftir maskann settum við á okkur Lactic Acid 10% + HA 2% frá The Ordinary sem ég reyni að gera oftast fyrir svefn.

Næsta morgun fékk ég að sofa út en dekrið hélt áfram um leið og ég byrjaði daginn. Það er oft talað um að stelpur geti farið í þrjár mismunandi sturtur: snögga kroppasturtu, hár- og kroppasturtu og svo alvöru “skrúbba, raka, setja hármaska og hlusta á tónlist sturta”. Ég tók klárlega þessa þriðju þennan morguninn. Nýtti tækifærið líka til að setja í mig fjólublátt sjampó ásamt rest.

Ég hef prófað ótrúlega marga líkamsskrúbba en þessi úr spa línunni í Body shop er sá allra besti. Hann er grófur og skilur eftir sig silkimjúka húð. Ég passa að raka mig áður en ég skrúbba líkamann en ekki öfugt. Eins og þið sjáið þá er ég mikill Body shop fan því eiginlega það sama gildir um andlitsskrúbbinn. Ég er ekki með mjög viðkvæma húð á andlitinu og fíla andlitsskrúbba sem eru grófir, sem þessi einmitt er. Hárið mitt þarfnast mikillar umhugsunar eftir ótal margar aflitanir og smá pakkalitarslys í seinasta samkomubanni. Það hefur orðið ótrúlega skemmt og þurrt. Ég hef prófað mörg fjólublá sjampó og marga hármaska frá mismunandi merkjum. Þetta er eina fjólubláa sjampóið af öllum sem ég hef prufað sem tekur gula tóninn úr hárinu en gerir mig ekki fjólubláhærða. Eins hefur þessi hármaski reynst mér ótrúlega vel og skemmir ekki fyrir hvað bæði sjampóið og hármaskinn eru á góðu verði! En þessar vörur nota ég aðeins einu sinni í viku og fyrir þau ykkar sem eru í sama basli og ég með hárið sitt þá mæli ég með Olaplex sjampóinu og næringunni. Þessar vörur nota ég vanalega þegar ég þvæ hárið og mér finnst hárið mitt hafa orðið mun skárra eftir að ég byrjaði að nota þær.

Vörurnar sem ég notaði eftir sturtu:

Oi mjólkina nota ég í rakt hárið áður en ég set hitavörn og blæs (ef ég nenni að blása þ.e.a.s.). Svo eru þetta body lotionið og rakakremið sem ég nota oftast. Þetta er uppáhalds rakakremið mitt strax á eftir beauty flash balm frá Clarins, ég var bara nýbúin með túbuna af því þarna.

Eins gott að líkaminn og andlitið voru veeeel preppuð því það var kominn tími á brúnkukrem. Mér líður alltaf miklu betur þegar ég er búin að bera það á mig. Ég byrjaði mjög seint að prófa brúnkukrem. Ég nennti aldrei að standa í því að læra að setja það á mig og enda svo alltaf flekkótt og appelsínugul. Mér fannst það líka alltaf svo rosalega tímafrekt… þangað til að ég kynntist þessu:

Marc Inbane brúnkuspreyið

Það tekur sko enga stund að bera þetta á sig og þetta er auðveldasta varan í notkun að mínu mati (allavega finnst mér mikið léttara að nota sprey heldur en froðu og hvað þá krem). Þetta er aðeins meiri fjárfesting en önnur brúnkukrem en svo þess virði. Mér finnst líka ein flaska endast mjög lengi þó ég noti hana á ca viku fresti. Ég ber þetta á mig með Marc Inbane hanskanum og svo nota ég farðabursta til að bera þetta á hendurnar og svæðin á andlitinu sem ég vil skyggja. Ég set vanalega á mig brúnkukrem á morgnana eða um miðjan dag svo að ég skola þetta ekkert af fyrr en í næstu sturtu. Ef planið er að fara í ljós föt þá skola ég vanalega ysta lagið af nokkrum klukkutímum eftir að ég set það á mig. Svo endist brúnkan mislengi eftir því hve mikið þú svitnar, hversu oft þú ferð í sturtu, hvort þú farir í bað eða sund og fleira.

Með öllu þessu var ég búin að taka mér smá stund í að hugsa um mig. Ekki gleyma að hugsa vel um ykkur sjálf líka.

Takk fyrir lesturinn
xoxo
Aleksandra<3