Bananabrauð

Eitt sem fáir vita um mig er að ég elska að elda og baka. Mér líður sjaldan jafn vel og í eldhúsinu með podcast eða tónlist í gangi að búa til einhvern góðan mat. Ég ákvað að búa til bananabrauð í gær og það tókst mjög vel. Það er líka geggjað tækifæri til að nýta þreytta banana sem til eru á heimilinu. Ég ákvað að setja inn þessa færslu fyrir þá sem vilja baka eitt stykki girnó bananabrauð en vantar góða uppskrift.Hráefnin sem þú munt þurfa:
2 egg
2dl sykur
3 og 1/5dl hveiti
2tsk lyftiduft
60g smjör
1tsk vanilludropar
1/2 dl mjólk
2 bananar

Ég byrja alltaf á því að kveikja á ofninum og bræða smjörið, svo það hafi nægan tíma til að kólna.
Ofninn skal stilla á 180° á undir- og yfirhita.

Svo er hægt að byrja að blanda:
1. Hræra eggjum og sykri saman þangað til að blandan verður létt og ljós
2. Sigta saman hveiti og lyftiduft a.m.k tvisvar og blanda því við eggjablönduna

(ég tek alltaf auka skál, sigta fyrst ofan í hana og sigta svo aftur beint útí eggjablönduna)
3. Merja banana og blanda við smjörið, vanilludropana og mjólkina
(mér finnst gott að kremja bananana soldið vel í hýðinu þá er léttara að merja þá þegar maður tekur hýðið af)
4. Setja bananablönduna út í rest og hræra þangað til allt blandast vel saman
5. Hella í smurt form

(ég strái svo smá haframjöli yfir en það er alveg valfrjálst)

6. Baka í 50-60 mínútur
(ég set klukkuna yfirleitt á 50 mínútur og tékka svo með grillpinna hvernig brauðið er inní, ef það er ennþá blautt þá bæti ég við nokkrum mínútum og tékka aftur)

7. NJÓTA!
(dásamlegt með smjöri og osti)

Takk fyrir lesturinn
xoxo
Aleksandra<3