Jólahefðir og hjátrú

Allir hafa sínar jólahefðir og margir með svipaðar! Ég hef ekki kynnst mörgum á Íslandi sem hafa sömu jólahefðir og mín fjölskylda. Enda er ég ættuð frá Póllandi svo að hefðirnar margar koma úr kaþólskri trú. Einnig hafa sumir í fjölskyldunni minni verið nokkuð hjátrúafullir og margar hefðir skapast út frá því. Þó svo að ég trúi ekki endilega á allt þá tek ég sjaldan sénsa þegar kemur að hjátrú.
Mér finnst ótrúlega fallegt og skemmtilegt að halda við gamlar hefðir og að skapa sínar eigin, finnst það gefa jólunum meiri lit. En stundum þegar ég segi frá því hvernig við fjölskyldan höldum uppá jólin þá finnst fólki hefðirnar okkar afskaplega skrítnar og öðruvísi. Þannig hví ekki að deila þeim með ykkur?


Hér eru jólahefðirnar okkar:

1. Fáum í skóinn 6.des

Við eigum ekki heila 13 jólasveina, því miður. En fyrir utan gjafir á aðfangadag þá fáum við lítinn pakka í skóinn þann 6. desember. Oft er það þannig að bara krakkarnir fá í skóinn en á mínu heimili gefum við mamma hvor annari gjöf þennan dag.

2. ÞEMA!

Við mamma ákváðum fyrir löngu að hver jól ættu að hafa sitt þema. Það er aðallega litaþema í pakka- og jólaskreytingum. Við skiptum oft milli þess að hafa gyllt jól, rauð jól og svo hvít jól (frostþema). Þetta þrennt skýrir sig soldið sjálft en við blöndum aldrei þessu þrennu saman.

3. Aðfangadagur sýnir næsta ár!

Ein hjátrúin er sú að aðfangadagurinn sýnir hvernig allt næsta ár verður hjá manni. Þess vegna pössum við mamma t.d. alltaf uppá að þrífa heimilið vel, snemma á aðfangadag eða að vera góðar við hvor aðra og fólkið í kringum okkur. Þá verður heimilið alltaf hreint á nýju ári og við verðum alltaf góðar við alla og þeir við okkur.

4. Auka sæti við matarborðið

Við geymum alltaf autt sæti við matarborðið á aðfangadagskvöldi fyrir óvæntan gest. Allir eru velkomnir og auka sætið er fyrir þann sem annars væri einn á jólunum.

5. Obláta

Áður en maturinn hefst á aðfangadagskvöldi þá óskum við hvert öðru gleðilegra jól og allskonar góðs á nýju ári. Hver fær sína oblátu (ca. á stærð við iphone (ekki max)) og svo gengur hann á milli hvers og eins og óskar honum einhvers góðs fyrir næsta ár og sá hinn sami gerir það á móti. Svo til að “taka við óskinni” þá brýtur maður smá bút af oblátu hins og borðar hann. Þegar allir eru búnir að skiptast á óskum og oblátubútum þá má kvöldmáltíðin hefjast.

6. Tólf réttir á aðfangadag

Jújú, móðir mín eða amma eða hver svo sem heldur jólaboð á aðfangadag það ár þarf að græja tólf rétti. Þetta er samt ekki jafn slæmt og það hljómar því hvert meðlæti eða sósa telst sem einn réttur. Réttirnir eru tólf vegna þess að postularnir voru tólf. Einn af þessum réttum eru heimagerðar núðlur með birkifræjum, hunangi og þurrkuðum ávöxtum og hjátrúin segir að því meira sem þú borðar af þessum núðlum á aðfangadag því meiri lukka mun fylgja þér næsta árið.

7. Ekkert kjöt!

Já þið lásuð rétt… við borðum ekkert kjöt á aðfangadag. Maturinn okkar samanstendur af fiski, allskonar súrkálsréttum, núðlum, súpu, pierogi (svipað og dumplings) og meðlætum. Svo er alltaf birkifrækaka með kaffinu.

8. Skylda að smakka allt!

Þó það sé ekki nema hálf teskeið af einhverjum rétt þá þarf að smakka smá af öllu. Annað boðar ólukku!

Vonandi njótið þið ykkar um jólin með ykkar jólahefðum eins og ég mun gera! Gleðilega hátíð ❤

Takk fyrir lesturinn
xoxo
Aleksandra<3