2020 tekið saman

Ég held að við séum mörg sammála um að þetta ár verði ekki í uppáhaldi hjá öllum en ég held þó að margir geti tekið margt gott út úr því. Það er margt skemmtilegt búið að gerast hjá mér á þessu ári og ég kýs að taka það með mér inní nýtt ár heldur en það slæma. Ég hef t.d. fengið meiri tíma með mínum nánustu heldur en áður og fyrir það er ég mjög þakklát. Þar sem hittingarnir og ferðalögin hafi ekki verið mörg á árinu þá naut ég þeirra extra mikið þegar að því kom…og þó að ég hefði viljað sleppa því ömurlega sem fylgdi árinu þá get ég alveg nefnt nokkra hápunkta ársins 2020. Í lok hvers árs finnst mér gaman að líta tilbaka og gera upp árið sem er að líða og nú er ég svo heppin að geta deilt því með ykkur.

Svo að hér er árið mitt, 2020, gert upp:

Glasgow ferðin okkar Ingibjargar

Ég og Ingibjörg byrjuðum árið á helgarferð til Glasgow sem ég tel einn af hápunktum ársins. Planið var að taka okkur smá ferð áður en skólinn byrjaði á fullu aftur og að sjálfsögðu versla! Myndirnar frá ferðinni urðu alls ekki margar enda voru hendurnar alltof fullar af burðarpokum til að vera að taka upp símana. Við nutum þess að versla, borða mikið af góðum mat en aðallega að fá að eyða helginni tvær saman.

Hitti Ingibjörgu Ester

Ég og Ingibjörg Ester höfum verið bestu vinkonur síðan á leikskóla. Hún hefur búið í Noregi núna í ca 5 ár og við hittumst í mesta lagi tvisvar á ári. Ég fékk sem betur fer eitthvað að hitta hana í byrjun árs þegar hún kom til Íslands í ekki nema 2 daga! Þar sem ég hitti hana svo alltof sjaldan þá er það yfirleitt einn af hápunktum hvers árs.

Hringferð

Ég og Kristófer ákváðum að taka hringinn í kringum landið í lok sumars og var það fyrsta hringferðin mín. Ég ætla ekki að hafa þetta langt þar sem mig langar að setja sér færslu um þessa ferð en hún telst klárlega til hápunkta ársins.

Önnur ferðalög

Við Kristófer ferðuðumst meira en bara hringinn og heimsóttum fræga ferðamannastaði, hótel og sundlaugar.

Nóg af deitum, sambandsafmæli og aldamótatónleikar

Við vorum líka dugleg að brjóta upp hversdagsleikann og fórum á mörg skemmtileg deit. Hvort sem það var lunch í bænum, lautarferð, folf, að fara út að borða, sleðaferð eða bara göngutúr á mismunandi stöðum. Skemmtum okkur líka konunglega á aldamótatónleikunum á bryggjunni þar sem við nutum kvöldsins með bróður Kristófers, kærustu hans og nóg af G&T. Á einu af deitunum fögnuðum við einnig fyrsta sambandsafmælinu okkar saman ❤

snáðarnir 1 árs

Ég byrjaði að blogga!

Án efa eitt af því besta við árið 2020! Ég hálfpartinn trúi ekki ennþá að ég hafi byrjað að blogga. Mig var búið að langa að byrja að blogga í meira en ár en þorði aldrei að taka af skarið. Ég var löngu búin að búa til síðuna og byrjuð að skrifa færslur áður en ég loks ákvað að gera síðuna opinbera. Þetta var stórt skref fyrir mig og kenndi mér að láta vaða og taka sénsa. Það gleður mig mjög mikið að þið skulið skoða bloggið, lesa færslurnar mínar og senda mér falleg skilaboð ❤ TAKK FYRIR

Jólin

Ég hef aldrei upplifað betri jól en þessi. Það var endalaust af góðum mat, skemmtilegu spili, spjalli, hlátri, fullkomnum jólapökkum og HELLINGUR af ást og umhyggju. Skemmdi ekki fyrir að við fengum sms rétt fyrir jól að framtíðarhundurinn okkar væri fæddur! Ég er endalaust þakklát fyrir alla í kringum mig og hef fundið extra mikið fyrir því núna um jólin hvað mér þykir ótrúlega vænt um þau öll! Fjölskylduna mína jafnt og frábæru fjölskylduna hans Kristófers og hann sjálfan ❤

Þetta ár er búið að vera rosalegur rússíbani en ég hvet ykkur öll til að líta aðeins tilbaka og taka með ykkur allt það jákvæða inní nýja árið sem er að koma. Ég hlakka til að halda áfram að skrifa færslur og leyfa ykkur að fylgjast með.

Ég vil óska ykkur og ykkar nánustu hamingju og góðrar heilsu á nýju ári og þakka fyrir árið sem er að líða!

Takk fyrir lesturinn
xoxo
Aleksandra<3